sunnudagur, 19. febrúar 2017

Bæjarstjórn sem tók jóðsótt í húsnæðismálum

Í allri þeirri umræðu sem á sér stað í þjóðfélaginu um hátt húsnæðisverð og lóðaskort er viðbúið að maður líti sér nærri og skoði hvað Kópavogur hefur verið að gera.  Það kannast margir við máltækið fjallið tók jóðsótt og það fæddist lítil mús.  Í Kópavogi má segja að fjallið hafi verið með jóðsótt í tæp þrjú ár en ekki enn hafi fæðst hús.  Í bæjarstjórn er húsfyllir af hæfileikaríkum einstaklingum með mörg orð og falleg, hver og einn gæti unnið ræðukeppni Morfís.  En það dugar einfaldlega ekki að sitja og ræða málin og setja fram fallegar hugmyndir en koma svo engu í verk.

Nú er svo komið að lóðaskorturinn er alger í Kópavogi.  Samkvæmt heimasíðu bæjarins eru einungis 18 lausar lóðir til umsóknar í öllum Kópavogi, þar af eru þrjár hesthúsalóðir, ein lóð undir atvinnustarfsemi og 14 einbýlishúsalóðir.  Aldrei á þessari öld hafa verið eins fáar lausar lóðir í Kópavogi og á sama tíma rýkur íbúðaverð upp og unga fólkið á einskis annars kosts en að leita í önnur bæjarfélög.  Það segir sig sjálft að þegar fermetraverð í íbúð slagar hátt í 600.000 þúsund krónur þá getur verið góður kostur fyrir ungt fólk að taka höndum saman og byggja par- eða raðhús.  Því ekki ráða allir við að fara beint í að byggja einbýlishús.  Unga fólkið hefur ekki tækifæri til að byggja í Kópavogi, þó svo að nóg sé til af landi, heldur þarf það að leita annað og er það á ábyrgð núverandi meirihluta bæjarstjórnar Kópavogs og engra annarra.

Þann 25. janúar s.l. voru  3 ár síðan bæjarstjórinn í Kópavogi skrifaði margra orða grein á bls. 27 í Morgunblaðinu.  Þar skrifar hann um hagsæld Kópavogs og ábyrga húsnæðisstefnu, sem sýnir að hann þekkir vel til.  Við þessum fróðleik tók hin nýkjörna velmælandi bæjarstjórn,  sem kosin var í maí 2014 og settist niður fljótlega eftir kosningar, ræddi málin og skipaði nefnd um húsnæðismál.   Nefndin setti svo fram fullt af flottum hugmyndum en engar raunverulegar aðgerðir hafa fylgt.  Ein hugmyndin breytti Kópavogsbæ í lánastofnun sem lánar með engum vöxtum til sérvalinna Kópavogsbúa, sem reyndar stenst ekki lög en er fallegt á pappír.  Ef fram fer sem horfir verður þetta fyrsta bæjarstjórnin í sögu Kópavogs sem tekst að gera akkúrat ekkert í húsnæðismálum sem stenst lög.  Það er afrek.

En hvað er til ráða?  Það er t.d. hægt að brjóta land sem við þegar eigum og er þegar skipulagt uppi í Vatnsenda og úthluta undir par-og raðhús, fjórbýlishús, fjölbýlishús, blokkir og einbýlishús.  Jafnvel væri hægt að úthluta lóðum  til leigufélaga sem, með samkomulagi við bæinn, skuldbinda sig til að miða leiguverð við ákveðna upphæð á fermetra.  Sama hátt gæti Kópavogsbær haft við önnur félög sem myndu skuldbinda sig til að selja á ákveðnu fermetraverði beint til einstaklinga.  Eins gæti Kópavogur haft frumkvæði að því að stofna félag til að byggja, selja eða leigja íbúðir.  Félag sem ekki væri rekið í hagnaðarskyni.  Hægt væri að gera það og fleira  t.d. í samvinnu við lífeyrissjóði.  Það er fullt af lausnum.  Nú er nóg komið af því að „taka samtalið“ og kominn tími á aðgerðir.


grein í Kópavogsblaðið sem kom út 16. febrúar 2017