sunnudagur, 7. maí 2017

“Fjárkúgun” á öldruðum í skjóli bæjarstjórnar

Í mars og apríl var töluvert fjallað um málefni íbúa í Boðaþingi. Þeir fóru í mál við Naustavör, sem er dótturfélag Sjómannadagsráð sem á og rekur Hrafnistu í Boðaþingi. Það er með ólíkindum að fylgjast með þeim fréttum sem þaðan berast. Efir að málaferlum lauk, með sigri íbúa, hefur íbúum verið sagt upp samningum og kostnaður íbúanna einfaldlega hækkaður.
„Þetta gera menn ekki“ sagði skáldið eitt sinn og ætla ég að gera þau orð að mínum. Það er nefnilega ekki hlaupið að því að finna sér nýtt leiguhúsnæði eins og markaðurinn er í dag. Þannig að íbúar hafa því lítið val, heldur en að borga enn hærri leigu. Leigan er nú þegar töluvert hærri en á almennum markaði, auk þess sem greiða þarf sérstaklega fyrir hina ýmsu þjónustu.
Þessi framkoma er með þvílíkum eindæmum að það full ástæða er fyrir bæjaryfirvöld að skoða í hvaða farvegi þessi mál eru og einnig hvort að þessi framkoma sé í sama anda í Hrafnistu. Kópavogsbær er með samning við Hrafnistu varðandi ýmsa þjónustu sem veitt er í félagsmiðstöðinni í Boðaþingi. Þetta eru íbúar í bænum sem eru að sækja í þjónustu sem byggð var á þessum stað í samvinnu við Kópavogsbæ. Þess vegna verður bæjarstjórn að skoða hvað sé þarna að eiga sér stað.
Ekki má sitja með hendur í skauti og bíða efir að íbúar séu líkt og neyddir til að reiða fram meira fé, eða eins og einn íbúinn kallaði það í viðtali við kvennabladid.is „þetta er ekkert annað en fjárkúgun“  Við þessu á Kópavogsbær að bregðast og tryggja að öldruðum sé búið áhyggjulaust ævikvöld í Boðaþingi.