laugardagur, 9. desember 2017

Þarf að gera umtalsvert betur í húsnæðis- og lóðamálum í Kópavogi

Nú þegar sér fyrir endann á kjörtímabilinu er augljóst að þessum meirihluta er ekki treystandi í húsnæðis- eða lóðamálum.

Besta dæmið um það er að nú eru liðin rúm tvö ár síðan „stefnumarkandi leiðir íhúsnæðismálum í Kópavogi“ voru kynntar á blaðamannafundi, en þeirri skýrslu var stungið undir stól. Fékk aðeins umfjöllun þegar lóðin undir áhaldahúsinu fór í úthlutun en það náði ekki lengra en í smá umræðu.

Annað dæmi er Vatnsendahlíð en þar var tilbúið skipulag sem var síðan kært og fellt úr gildi í byrjun árs 2016. Ekkert hefur verið unnið meira með það, sem er hreinlega til skammar því eins og allir vita tekur töluverðan tíma að fara í gegnum ferlið sem liggur að tilbúnu skipulagi.

Þriðja dæmið er reiturinn við Sorpu, en þar er landsvæði sem Kópavogsbær á ekki samkvæmd dómi hæstaréttar. Það hefur ekkert verið gert í því máli og því stungið undir stól


Fjórða dæmið er Vatnsendahæðin. Það stóð til boða að kaupa það landsvæði á góðu verði ef að líkum lætur, því að Garðabær keypti Vífilstaðalandið þegar það stóð til boða. Þáverandi fjármálaráðherra nefndi að Kópavogsbæ stæði til boða að kaupa Vatnsendahæð á sömu kjörum. Hægagangurinn var alger og kom í veg fyrir að hægt væri að ganga frá því áður en sú ríkisstjórn féll.

Fimmta dæmið er Glaðheimasvæðið. Hluti svæðisins var tilbúið til úthlutunar fyrir kosningar 2014,
en á seinni hluta svæðisins átti eftir að ganga frá samningum við eigendur tveggja hesthúsa en skipulag tilbúið. Ennþá hefur ekki verið gengið til samninga við eigendur hesthúsanna þar. Það er ljóst að aðgerðarleysi er besta lausnin hjá núverandi meirihluta.

Sjötta dæmið er viðhald á mannvirkjum bæjarins. Stóra málið er auðvitað Kársnesskóli, þar var löngu komin þörf á kröftugar aðgerðir en ekkert var að gert og nú hefur verið ákveðið að byggja nýjan skóla. Bæjarskrifstofurnar, sem svo nauðsynlegt var að rýma, eru nú notaðar undir elstu árgangana í skólanum og enn hefur ekki neinum orðið meint af. Vinnuskólinn hefur haft starfsstöð í Kópavogsdalnum sem hefur verið lokað og sett í gáma.

Á þessum rúmum 3 árum sem þessi meirihluti hefur verið við völd hefur verið úthlutað lóðum fyrir um 500 íbúðir og annað í Kópavogi, fyrir það hafa komið um 3 milljarðar króna í kassann. Ekki hefur verið malbikuð ein ný íbúðagata fyrir þessar íbúðir. Flestar götur voru tilbúnar, annað hefur þessi meirihluti ekki komið í verk. Þannig að fyrirséð er fjárstreymi úr bæjarsjóði til að ljúka við götu, göngu- og hjólastíga og opin svæði á þessum stöðum þar sem lóðum hefur verið úthlutað.
Með fullkomnu aðgerðarleysi er þessum útgjöldum velt yfir til framtíðar bæjarbúa og bæjarstjórna að ráða fram úr. Síðan er tönnlast á að allt sé svo faglegt og vel unnið. Það er einfaldlega treyst á að flestir Kópavogsbúar séu eins og minnihlutinn í bæjarstjórn Kópavogs, fari í klappliðið og kíki ekki undir stólinn eða úti í horn. En fari allra síst að horfa til framtíðar í húsnæðis- og lóðamálum. Það er ekki að gerast, því það eru íbúar í bænum sem telja niður dagana til kosninga sem verða eftir 174 daga.

(grein í Kópavogsblaðinu 2, desember 2017)

sunnudagur, 3. september 2017

Kúnstin að þola góðærið

            Það hefur gengið á ýmsu þetta kjörtímabil hjá núverandi bæjarstjórn. Bæjarstjórn hefur ýmist valið eða þurft að loka stofnunum í bænum vegna skorts á viðhaldi. Það hefði þótt saga til næsta bæjar fyrr á öldinni ef deild á leikskóla hefði verið færð í annað húsnæði í heilan mánuð, hætt að nota húsnæði vinnuskólans og starfsemin flutt í gáma, loka hluta Kársnesskóla og færa starfsemina. Rúsínan í pylsuendanum er þó að bæjarskrifstofurnar, sem voru í það slæmu ástandi að það þurfti að bregðast við strax, voru flutt í nýtt húsnæði vegna heilsu starfsfólksins, en húsnæðið er núna nógu gott til að hýsa skólabörnin okkar.  Það hefði þótt ástæða fyrir nokkrum árum að taka þetta virkilega alvarlega og framkvæmdasamir stjórnmálamenn hefðu tekið fast á málum.
            Það sem hefur þó einkennt þennan meirihluta framar öllu er viljaleysi til að taka á málum.  Enn hefur ekkert haggast í Vatnsenda og er það fyrst og fremst viljaleysi meirihlutans.  Enn hefur ekkert gerst varðandi hesthúsin á Glaðheimasvæðinu. Enn hefur ekkert gerst varðandi Fífuhvammslandið rétt við móttökustöð Sorpu. Enn er verið að beita fornaldaraðferðum varðandi hirðingu á plasti frá bæjarbúum og svo mætti lengi telja.  Það er eins og meirihlutinn átti sig ekki á að málin hverfa ekki þó þeim sé sópað út í horn eða undir teppi. Það er ekki hægt að ætlast til að þessi meirihlutinn geri kraftaverk á þeim 287 dögum sem eru til kosninga, heldur bara vona að hann komi skammlaust frá þessum tíma. Það er nefnilega ekki minni kúnst að stjórna í góðæri en þegar þrengir að og það er ekki hægt að fara í gæluverkefni á meðan þörfin fyrir viðhald og jafnvel óvinsælar ákvarðanir sem þarf að taka bíða ekki endalaust.Nýverið hitti ég bæjarfulltrúa sem fannst að ég væri helst til neikvæður í þeirra garð.  Það er ekki neikvæðni að benda á það sem ekki er gert og það sem betur mætt fara.  Fram til þessa hafa 11 manns verið í klappliði bæjarstjórnar.  Þó að vísbendingar séu um að minnihlutinn sé að átta sig á að það borgar sig ekki að fara niður með sökkvandi skipi.  Það er líka ástæða til að ætla að þetta fólk geti haldið eigin verkum hátt á lofti.  Það er ekki neitt sem ég hef löngun til að gera.  Enda ekki áhugaverð afrekaskrá. 

(grein í Kópavogsblaðinu 26 ágúst 2017)

sunnudagur, 20. ágúst 2017

Friðurinn út í bæjarstjórn Kópavogs

Það er alltaf fróðlegt að lesa fundargerðir bæjarstjórnar og bæjarráðs Kópavogs.  Nú er ljóst að bæjarfulltrúar eru farnir að átta sig á að það styttist hratt í kosningar og það speglast í fundargerðum. Meirihlutinn farinn að reyna fá stig fyrir viðleitnin og lofa fran á næsta kjörtímabil sem munu kosta á næstu árum bæjarsjóð mikla fjármuni.  En undanfarið hefur þessum meirhluti tekist einstaklega illa upp með að reka bæjarsjóð og verður fróðlegt að sjá ársreikning fyrir árið 2017.  Það er fyrirséð að bæjarsjóður mun auka skuldahlutfall sit aftur og nú er lítið inn á bók.  Ekki eins og var þegar þessi meirihluti tók við og yfir 500 íbúðir voru til á lager hjá Kópavogsbæ.  En núna er engin íbúð til úthlutunar (mögulega er að koma inn eitt fjölbýlsihús með 43 íbúðum).  Því eins og ágætur sjálfstæðismaður sagði svo vel "það er kúnst að þola góðæri"  og þegar bæjarstjórn hefði átt að vera leggja áherslu á viðhald skóla og leikskóla var það ekki gert heldur verið að setja upp rólur og leiktæki sem vissulega er skemmtilegt.  En það þarf að forgangsraða og það hefur þessi bæjarstjórn sýnt fram á að hún er óhæf í gera.  Því það hefur legið lengi fyrir að húsnæðið er að eldast og þörf er á auknu viðhaldi víða í bænum. En hér er dæmi um fundargerð sem meirhlutinn er að fara með í prófkjör og kosningar.   

Tveimur vikum seinna vaknar minnihlutinn og hefur nú líka áttað sig á að það er að styttast í kosningar og nú er byrjað að bóka sem aldrei fyrr.  Hér er dæmi um fundargerð þar sem minnihlutinn er voða duglegur að bóka.  Það er ekki nokkur afsökun að það séu margir nýliðar í hópi þeirra bæjarfulltrúa sem eru í minnihlutanum.  Það á við um meirihlutann líka.  Það þarf að sinni því starfi að vera bæjarfulltrúi það er ekki bara flottur titill og skraut sem menn bera á tyllidögum.  Kópavogur er stórt og kraftmikið bæjarfélag sem á það skilið að því sé sinnt af ástríðu og kappi.  Nýverið hitti ég bæjarfulltrúa sem fannst að ég væri helst til neikvæður í þeirra garð.  Það er ekki neikvæðni að benda á það sem ekki er gert og það sem betur mætt fara.  Fram til þessa hafa 11 manns verið í klappliði bæjarstjórnar.  Þó að vísbendingar séu um að minnihlutinn sé að átta sig á að það borgar sig ekki að fara niður með sökkvandi skipi.  Það er líka ástæða til að ætla að þetta fólk geti haldið eigin verkum hátt á lofti.  Það er ekki neitt sem ég hef löngun til að gera.  Enda ekki áhugaverð afrekaskrá. 

Að lokum þetta.  Hér fyrir neðan eru myndir af nýju skólastofunum í Kársnesskóla.  Það er skólasetning á þriðjudaginn og það er að hefjast kennsla á miðvikudaginn.  Nú hefði verið gott að eiga inni þá daga og vikur sem fór í að hugsa málið og komast að niðurstöðu um hvað ætti að gera.  Stundum þarf einfaldlega að vera tilbúinn til að vinna hratt og örugglega.


þriðjudagur, 18. júlí 2017

Aðkeypt lýðheilsa getur verið öflug lýðheilsa

Nú nýverið auglýsti Kópavogsbær eftir sérfræðingi til starfa hjá bænum til að sinna lýðheilsumálum.   Að mínu mati á að kaupa þessa vinnu í aðkeyptri þjónustu.  Áður en lengra er haldið vil ég þó taka skýrt fram að ég er hlyntur blönduðum búskap í þessum málum og sum þjónusta á að vera aðkeypt og í mörgum tilfellum þarf að ráða starfsfólk eins og t.d. þyrfti að gera varðandi smiði sem vinna hjá/fyrir Kópavogsbæ en það er önnu saga og ætla ég ekki að ræða það nánar hér.  En aftur að sérfræðingnum í lýðheislumálum.

Þá er þetta starf sem kostar með öllum launatengdum gjöldum og sköttum einhverstaðar á milli 10-13 miljónum á ári.  Síðan þarf skrifstofuaðstöðu í húsnæði sem nú þegar verið er að flytja inn í er sprungið. Eins þarf skrifstofubúnað og fleira sem tilheyrir.  Síðan eru
það verkefni sem tilheyra því að halda úti öflugri lýðheilsustefnu ár hvert sem gætu kostað á milli 3-5 miljónir á ári í aðkeypt námskeið, fundi og fyrirlestra bæði fyrir starfsmenn og íbúa bæjarins.  Startkostnaður með auglýsingu og ráðningarferli og því sem áður hefur verið nefnt gæti á árgrundvelli verið um 20 milljónir og síðan um 13-18 milljónir á ári eftir það.  Því að mínu mati á að gera vel í þessum málaflokki en ekki kasta til hendinni eins og verið er að gera nú á síðustu metrunum fyrir kosningar því menn vöknuðu allt í einu upp og átta sig á því að ekkert hefur verið gert í 3 ár unnið hefur verið á hraða snigilsins og nú á að fara á fullkomið fyllerí.  Því það er fyrirséð að þessi meirhluti lifir ekki af næstu kosningar.  En það er önnur saga.

 Aftur að lýðheislumálum.  Því nokkur vinna var lögð í að móta Lýðheilsustefnu Kópavogs en nú skal allt gert 2007 stæl og í stað þess að fara í þarfagreiningu og hugarflæði hvernig best væri að stíga næstu skref þá var fúskað og plástrað til þess að bjarga sér fram að 26. maí 2018.  Að mínu mati hefði verið mun gáfulegra að kaupa að þjónustu keyra í gang fyrstu skref með fagaðilum sem t.d. í fyrstu gætu keyrt á punktum 1 og 4 en ég hefði gert það og átt afgang.

sunnudagur, 7. maí 2017

“Fjárkúgun” á öldruðum í skjóli bæjarstjórnar

Í mars og apríl var töluvert fjallað um málefni íbúa í Boðaþingi. Þeir fóru í mál við Naustavör, sem er dótturfélag Sjómannadagsráð sem á og rekur Hrafnistu í Boðaþingi. Það er með ólíkindum að fylgjast með þeim fréttum sem þaðan berast. Efir að málaferlum lauk, með sigri íbúa, hefur íbúum verið sagt upp samningum og kostnaður íbúanna einfaldlega hækkaður.
„Þetta gera menn ekki“ sagði skáldið eitt sinn og ætla ég að gera þau orð að mínum. Það er nefnilega ekki hlaupið að því að finna sér nýtt leiguhúsnæði eins og markaðurinn er í dag. Þannig að íbúar hafa því lítið val, heldur en að borga enn hærri leigu. Leigan er nú þegar töluvert hærri en á almennum markaði, auk þess sem greiða þarf sérstaklega fyrir hina ýmsu þjónustu.
Þessi framkoma er með þvílíkum eindæmum að það full ástæða er fyrir bæjaryfirvöld að skoða í hvaða farvegi þessi mál eru og einnig hvort að þessi framkoma sé í sama anda í Hrafnistu. Kópavogsbær er með samning við Hrafnistu varðandi ýmsa þjónustu sem veitt er í félagsmiðstöðinni í Boðaþingi. Þetta eru íbúar í bænum sem eru að sækja í þjónustu sem byggð var á þessum stað í samvinnu við Kópavogsbæ. Þess vegna verður bæjarstjórn að skoða hvað sé þarna að eiga sér stað.
Ekki má sitja með hendur í skauti og bíða efir að íbúar séu líkt og neyddir til að reiða fram meira fé, eða eins og einn íbúinn kallaði það í viðtali við kvennabladid.is „þetta er ekkert annað en fjárkúgun“  Við þessu á Kópavogsbær að bregðast og tryggja að öldruðum sé búið áhyggjulaust ævikvöld í Boðaþingi.

föstudagur, 14. apríl 2017

Blandaður búskapur

Eitt af því sem ég mundi vilja sjá Kópavogsbæ gera meira af er að skoða í hvert skipt mjög ítarlega hvort það gæti verið möguleiki á að kaupa þjónustu utanfrá áður en það auglýsir starf eða hvort það er möguleiki á að hagræða innan sveitarfélagsins.  Því oft er kostur að kaupa þjónustu í þau verkefni sem þarf að gera hverju sinni og það er ekki allt verið að framkvæma þjónustu og starfsánægju könnun.  Það er ekki alltaf verið að gera úttektir á einstökum verkefnum. Þetta starf verkefnastjóra er í mínum huga tilvalið til að kaupa tímabundna þjónustu til og þá er hægt að nota fjármagnið betur.  T.d.ef það þyrfti að auka tímabundið við sálfræðiþjónustu á sviðinu þá væri hægt að kaupa hana líka.  Núverandi meirihluti hefur verið svoldið í því að bæta við báknið.  Stundum án nokkurrar skoðunnar heldur aðeins gert vegna þess að það var í stefnuskrá framboðsins.  Það þarf að vera meiri fagmennska og minna fúsk hjá bæjarstjórninni í þessu en það hefur ekki batnað við komu Bjartar Framtíðar í bæjarstjórn þrátt fyrir boðskapinn.  

sunnudagur, 19. febrúar 2017

Bæjarstjórn sem tók jóðsótt í húsnæðismálum

Í allri þeirri umræðu sem á sér stað í þjóðfélaginu um hátt húsnæðisverð og lóðaskort er viðbúið að maður líti sér nærri og skoði hvað Kópavogur hefur verið að gera.  Það kannast margir við máltækið fjallið tók jóðsótt og það fæddist lítil mús.  Í Kópavogi má segja að fjallið hafi verið með jóðsótt í tæp þrjú ár en ekki enn hafi fæðst hús.  Í bæjarstjórn er húsfyllir af hæfileikaríkum einstaklingum með mörg orð og falleg, hver og einn gæti unnið ræðukeppni Morfís.  En það dugar einfaldlega ekki að sitja og ræða málin og setja fram fallegar hugmyndir en koma svo engu í verk.

Nú er svo komið að lóðaskorturinn er alger í Kópavogi.  Samkvæmt heimasíðu bæjarins eru einungis 18 lausar lóðir til umsóknar í öllum Kópavogi, þar af eru þrjár hesthúsalóðir, ein lóð undir atvinnustarfsemi og 14 einbýlishúsalóðir.  Aldrei á þessari öld hafa verið eins fáar lausar lóðir í Kópavogi og á sama tíma rýkur íbúðaverð upp og unga fólkið á einskis annars kosts en að leita í önnur bæjarfélög.  Það segir sig sjálft að þegar fermetraverð í íbúð slagar hátt í 600.000 þúsund krónur þá getur verið góður kostur fyrir ungt fólk að taka höndum saman og byggja par- eða raðhús.  Því ekki ráða allir við að fara beint í að byggja einbýlishús.  Unga fólkið hefur ekki tækifæri til að byggja í Kópavogi, þó svo að nóg sé til af landi, heldur þarf það að leita annað og er það á ábyrgð núverandi meirihluta bæjarstjórnar Kópavogs og engra annarra.

Þann 25. janúar s.l. voru  3 ár síðan bæjarstjórinn í Kópavogi skrifaði margra orða grein á bls. 27 í Morgunblaðinu.  Þar skrifar hann um hagsæld Kópavogs og ábyrga húsnæðisstefnu, sem sýnir að hann þekkir vel til.  Við þessum fróðleik tók hin nýkjörna velmælandi bæjarstjórn,  sem kosin var í maí 2014 og settist niður fljótlega eftir kosningar, ræddi málin og skipaði nefnd um húsnæðismál.   Nefndin setti svo fram fullt af flottum hugmyndum en engar raunverulegar aðgerðir hafa fylgt.  Ein hugmyndin breytti Kópavogsbæ í lánastofnun sem lánar með engum vöxtum til sérvalinna Kópavogsbúa, sem reyndar stenst ekki lög en er fallegt á pappír.  Ef fram fer sem horfir verður þetta fyrsta bæjarstjórnin í sögu Kópavogs sem tekst að gera akkúrat ekkert í húsnæðismálum sem stenst lög.  Það er afrek.

En hvað er til ráða?  Það er t.d. hægt að brjóta land sem við þegar eigum og er þegar skipulagt uppi í Vatnsenda og úthluta undir par-og raðhús, fjórbýlishús, fjölbýlishús, blokkir og einbýlishús.  Jafnvel væri hægt að úthluta lóðum  til leigufélaga sem, með samkomulagi við bæinn, skuldbinda sig til að miða leiguverð við ákveðna upphæð á fermetra.  Sama hátt gæti Kópavogsbær haft við önnur félög sem myndu skuldbinda sig til að selja á ákveðnu fermetraverði beint til einstaklinga.  Eins gæti Kópavogur haft frumkvæði að því að stofna félag til að byggja, selja eða leigja íbúðir.  Félag sem ekki væri rekið í hagnaðarskyni.  Hægt væri að gera það og fleira  t.d. í samvinnu við lífeyrissjóði.  Það er fullt af lausnum.  Nú er nóg komið af því að „taka samtalið“ og kominn tími á aðgerðir.


grein í Kópavogsblaðið sem kom út 16. febrúar 2017